Almennar fréttir
Rauði krossinn fagnar vopnahléi og sendir fjárstuðning\r\ntil Palestínu
21. maí 2021
Eftir 11 daga af loftárásum og eldflaugasendingum náðist samkomulag um vopnahlé fyrir botni Miðjarðarhafsins. Þessu fagnar Rauði krossinn á Íslandi af heilum hug enda ljóst að afleiðingar síðustu daga eru nú þegar miklar og verða langvinnar.
Eftir 11 daga af loftárásum og eldflaugasendingum náðist samkomulag um vopnahlé fyrir botni Miðjarðarhafsins. Þessu fagnar Rauði krossinn á Íslandi af heilum hug enda ljóst að afleiðingar síðustu daga eru nú þegar miklar og verða langvinnar. Tugþúsundir hafa misst heimili sín, þúsundir særst og hundruð látist, þar af fjöldi barna. Ofan á tjón, mannfall og meiðsl bætast svo sálrænar afleiðingar þess að búa við vopnuð átök, langvarandi hernám og óöryggi.
Á undanförnum dögum hafa sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða hálfmánans í Palestínu unnið nótt sem dag við afar erfiðar aðstæður. Þau hafa komið særðum til hjálpar og aðstoðað almenna borgara við að verða sér úti um nauðþurftir. Dæmi hafa komið upp um að bráðaliðum hafi verið meinaður aðgangur að særðum, orðið fyrir beinum árásum og skemmdir unnar á björgunartækjum, þvert á alþjóðleg mannúðarlög.
Strax þann 11. maí hrinti Rauði krossinn á Íslandi af stað söfnun til aðstoðar íbúum Palestínu. Það má með sanni segja að almenningur á Íslandi hafi látið sig málið varða en til þessa hefur söfnunin gengið afar vel. Þökk sé almenningi og íslenskum stjórnvöldum getur Rauði krossinn nú strax sent um 30 milljónir króna til hjálparstarfs í Palestínu en þar af hafa safnast um 8 milljónir í söfnun Rauða krossins. Þá koma 11 milljónir af rammasamningi við utanríkisráðuneytið auk þess sem Rauði krossinn á Íslandi leggur sjálfur til um 11 milljónir.
Fjármagnið sem Rauði krossinn sendir mun annars vegar nýtast til að svara neyðarkalli palestínska Rauða hálfmánans vegna ástands undanfarinna daga. Þá mun stuðningurinn frá Íslandi auk þess tryggja áframhaldandi sálfélagslegan stuðning í Palestínu, einkum fyrir börn og ungmenni, verkefni sem Rauði krossinn á Íslandi og Rauði krossinn í Danmörku hafa stutt við í hartnær 20 ár.
Þó vopnahlé hafi nú tekið gildi er ljóst að þörf er á mikilli uppbyggingu enda eyðileggingin mikil. Þá er ekki hægt að líta framhjá því að íbúar Palestínu búa áfram við skert ferðafrelsi og mikið óöryggi auk þess sem Gasaströndin er enn í herkví. Þá má búast við að þörfin fyrir sálfélagslegan stuðning aukist enn frekar enda mikilvægt að leita allra leiða til að bæta geðheilsu og auka viðnámsþrótt þeirra sem búa við svo erfiðar aðstæður.
Söfnun Rauða krossins er því ekki lokið heldur verður hún opin í hið minnsta viku í viðbót og bindur Rauði krossinn vonir við að senda megi frekari fjárhagsaðstoð á komandi dögum og vikum og efla þannig mikilvæg verkefni á svæðinu enn frekar.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi:
Áfram er hægt að veita stuðning með eftirtöldum leiðum:Rauði krossinn á Íslandi þakkar af heilum hug almenningi, stjórnvöldum og Mannvinum, mánaðarlegum styrktaraðilum Rauða krossins, fyrir þeirra stuðning og snör viðbrögð á neyðartímum. Án þeirra gætum við ekki veitt íbúum Palestínu þennan mikilvæga stuðning.
Þó fyrsti hluti fjárhagsaðstoðarinnar verði nú sendur út þá er ljóst að þörfin er enn mikil og mun án efa aukast enn meira eftir því sem afleiðingar átaka síðustu daga koma betur í ljós. Við bindum því miklar vonir við áframhaldandi aðstoð almennings og heitum því að öllum framlögum verði, hér eftir sem hingað til, varið til góðra verka þar sem þörfin er mest.
- Söfnunarsíða Rauða krossins
- SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.)
- Aur: @raudikrossinn eða 1235704000
- Kass: raudikrossinn eða 7783609
- Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.