Almennar fréttir
Vegna brottvísana til Grikklands í nóvember 2022
03. nóvember 2022
Rauði krossinn á Íslandi fordæmir brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem þegar hafa fengið stöðu sína viðurkennda í Grikklandi. Félagið hefur ítrekað gagnrýnt brottvísanir til Grikklands og telur að þær skapi fólki hættu sem íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á.
Þá harmar félagið meðferð stjórnvalda á þeim á viðkvæma hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd sem frelsissviptir hafa verið og þvingaðir úr landi. Í því sambandi áréttar félagið að stjórnvöld eru bundin af grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf en samkvæmt henni skal stjórnvald einungis taka svo íþyngjandi ákvörðun, líkt og frelsissvipting er, þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru og vægara móti.
Í ljósi fréttaflutnings af brottvísun fatlaðs einstaklings sem notast við hjólastól vill Rauði krossinn benda á þá alþjóðlegu mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að, m.a. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt framangreindum samningum skulu aðildarríki þeirra gera allar ráðstafanir til að vernda fólk, þar á meðal fatlaða einstaklinga, fyrir pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.
Líkt og Rauði krossinn hefur ítrekað bent á ber fjölda heimilda saman um að aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu heilt yfir mjög slæmar. Umsækjendur, sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi og seinna leitað hingað til lands og óskað eftir alþjóðlegri vernd, hafa jafnframt undantekningarlaust greint frá óviðunandi aðstæðum í Grikklandi. Hefur yfirgnæfandi meirihluti þeirra búið í yfirfullum flóttamannabúðum þar sem öryggi, hreinlæti og aðbúnaði er verulega ábótavant.
Þegar umsækjendur hafa hlotið vernd neyðast þeir til að yfirgefa búðirnar, auk þess sem þeir missa þá lágu framfærslu sem þeim er tryggð á meðan þeir bíða eftir svari við umsókn sinni um vernd. Vegna kerfisbundinna hindrana og afar mikils atvinnuleysis meðal flóttafólks í landinu ná umsækjendur ekki að framfleyta sér og fjölskyldum sínum en fjárhagslegur og félagslegur stuðningur frá yfirvöldum er enginn. Þá er aðgengi flóttafólks að húsnæði í Grikklandi alvarlegt vandamál og þurfa margir hverjir af þeim sökum að hafast við í óviðunandi og/eða ólöglegu húsnæði eða á götunni. Þar að auki er aðgengi flóttafólks að grísku heilbrigðiskerfi verulega skert.
Rauði krossinn ítrekar fyrri tilmæli sín til hérlendra stjórnvalda og hvetur ríkisstjórn Íslands eindregið til að endurskoða þá stefnu að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa stöðu sína viðurkennda í Grikklandi, aftur þangað. Ástandið í Grikklandi hefur um nokkurt skeið verið óboðlegt fyrir flóttafólk en fólk á flótta á að njóta mannréttinda á sama hátt og annað fólk.
Til stuðnings framangreindu er vísað til samantektar um aðstæður flóttafólks í Grikklandi sem birt var á heimasíðu Rauða krossins á Íslandi í apríl sl.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.