Alþjóðastarf
Engin mannúðaraðstoð til Gaza í 18 daga
19. mars 2025
Palestínski Rauði hálfmáninn er að störfum við erfiðar aðstæður á Gaza eftir að loftárásir hófust enn á ný. Engin mannúðaraðstoð hefur komist inn á svæðið í á þriðju viku.
Hvorki matvörur, vatn, teppi, föt, tjöld né önnur nauðsynleg hjálpargögn hafa komist inn á Gaza síðan landamærastöðvar lokuðust 2. mars. Loftárásir hófust að nýju í fyrrinótt og bráðateymi palestínska Rauða hálfmánans hafa sinnt tugum særðra síðan. Konur og börn eru meðal þeirra er féllu í árásunum. „Átökum verður að ljúka,“ segir í nýrri tilkynningu frá Alþjóðasamtökum Rauða krossins og Rauða hálfmánans. „Áframhaldandi ofbeldi fylgir meiri hætta og þjáning, sem gerir íbúum Gaza enn erfiðara fyrir að lifa af.“
Heilbrigðisstofnanir um alla Gaza-ströndina voru orðnar yfirfullar og loftárásirnar nú auka enn frekar á það neyðarástand sem á þeim ríkir.
Öll heilbrigðisþjónusta á Gaza er í lamasessi eftir átök síðustu sextán mánaða. Engin mannúðaraðstoð hefur komist inn á Gaza í átján daga, hvorki lækningavörur, lyf, eldsneyti né annað. „Án þessara nauðsynlegu birgða verður sífellt erfiðara fyrir palestínska Rauða hálfmánann að veita lífsnauðsynlega meðferð og reka sjúkraflutningaþjónustu sína,“ segir í tilkynningu Alþjóðasamtakanna. Þar er bent á að af 53 sjúkrabílum sem palestínski Rauði hálfmáninn hefur í flota sínum sé nú aðeins hægt að nota 23 vegna eldsneytisskorts.
„Alþjóðasamtök Rauða krossins og Rauða hálfmánans taka ekki afstöðu með neinu öðru en mannúðinni,“ segir í tilkynningunni.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.