Alþjóðastarf
Neyðarsöfnun fyrir Marokkó og Líbíu
14. september 2023
Neyðarsöfnun vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu er hafin. Í gegnum hana getur almenningur styrkt viðbrögð landsfélaga Rauða hálfmánans í þessum löndum, en fulltrúar þeirra voru fyrstir á vettvang eftir báðar þessar hamfarir.
Rauði krossinn á Íslandi hefur sett af stað neyðarsöfnun vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu. Þó að um tvo ótengda atburði sé að ræða var ákveðið að hrinda af stað sameiginlegri söfnun vegna þess hve skammt var stórra högga á milli, en peningunum sem safnast verður ráðstafað út frá því hvar þörfin er mest.
Í báðum þessum skelfilegu hamförum létust þúsundir einstaklinga og heilu fjölskyldurnar þurrkuðust út. Í jarðskjálftanum í Marokkó urðu afskekkt svæði í Atlas-fjöllum einna verst úti og þar er þörf fyrir mikinn stuðning. Í Líbíu skoluðust heilu hverfin í borginni Derna burt í flóði, mannfallið er gríðarlegt og þau sem lifðu af standa frammi fyrir mikilli eyðileggingu og þjáningu.
Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Marokkó og Líbíu hófu þegar í stað að veita neyðaraðstoð, þar á meðal að sinna leit og björgun og veita fyrstu hjálp og sálrænan stuðning, en verkefnin sem þau standa frammi fyrir eru gríðarlega umfangsmikil. Meðal annars er mikil þörf á neyðarskýlum, heilbrigðisþjónustu, vatns- og hreinlætisaðstöðu, mat og öðrum nauðsynjum.
Rauði krossinn á Íslandi styður neyðarviðbragð Alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Íslenska þjóðin hefur löngum stutt hjálparstarf Rauða krossins af miklum krafti og í gegnum þessa söfnun getur almenningur rétt þolendum þessara hörmunga hjálparhönd.
Hægt er að styrkja neyðarsöfnunina með eftirfarandi hætti:
SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.) (Síminn og Nova)
Hringja í númerið 904-2500 fyrir 2.500 kr. styrk
Aur: @raudikrossinn eða 1235704000
Kass: raudikrossinn eða 7783609
Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.